Nærandi, ilmandi smákökur með pecan og súkkulaði

Nærandi, ilmandi smákökur með pecan og súkkulaði

Ein sú skemmtilegasta áskorun sem ég hef tekist á hendur er sú að setja saman ljúffengar og hátíðlegar uppskriftir sem gætu fengið hvern sem er til að gleyma óhollustu og sykursukki sem oft tilheyrir aðventu og jólum. Mér þykir heldur ekkert verra þegar ég næ þeim árangri án þess að það kosti mikla fyrirhöfn.

Þessar fallegu kökur eru einhverjar þær ljúffengustu smákökur sem ég hef nokkurn tímann smakkað. Og ég hef sko smakkað ýmislegt um ævina! Þær eru passlega sætar í bland við örlítið kryddaðan keim og pecan hnetur í bland við hágæða, lífrænt súkkulaði gera þær hreinlega ómótstæðilegar. Ég vildi að tæknin væri komin á þann stað að ég gæti leyft bökunarilminum að flæða hér í gegnum veraldarvefinn en í staðinn verður þú bara að prófa. Þetta tekur enga stund og er ótrúlega auðvelt!

Ég prófaði fjórar útgáfur. Fyrst kökurnar hreinar án hneta og súkkulaðis, svo með súkkulaði, annan skammt með hnetum og loks blandaði ég saman bæði hnetum og súkkulaði. Sú útgáfa var lang, lang best af þeim öllum. Það mun örugglega koma þér á óvart að upplifa ósvikið jólasmákökubragð án allra þessara hefðbundu eftirkasta á borð við magapínu, sykurmók og uppsprettu eilífrar sykurlöngunar. Bara himneskt bragð, heilnæm orka, fullt af næringu og góð líðan.

Ég mæli með tahini frá Monki í þessa uppskrift því það er sætara en annað tahini sem ég hef prófað. Það hefur eflaust eitthvað með uppskeruna að gera þar sem tahini er hreint mauk úr sesamfræjum sem í mesta lagi er bragðbætt með örlitlu salti. Þetta er því sannkölluð heilsuvara og er frábært í ýmsa matargerð og jafnvel í stað smjörs ofan á brauð. En það er önnur saga. Þú finnur þessa vöru m.a. í heilsuhillum Nettó og hér sérðu mynd af krukkunni til að auðvelda þér að finna hana. Ef þú vilt nýta annað tahini sem þú átt til þá gætirðu þurft að bæta við aðeins meiri sætu eða jafnvel blanda það til helminga með hreinu hnetusmjöri.

Ef þú ætlar á annað borð að skella í þessar dúllur þá væri líka afskaplega vel við hæfi að sækja pecan hneturnar og súkkulaðið einnig í lífrænu hillurnar. Ég notaði 70% lífrænt súkkulaði og fallegustu, lífrænu pecanhneturnar sem ég fann. Leyfðu þér að gera lífræna lúxusútgáfu í skammdeginu og þú munt ekki sjá eftir því.

Ég hef áður kynnt kókossykurinn til leiks, sem einnig fæst í Nettó, en það má einnig nota hreint hlynsýróp í staðinn. Það hefur þó meiri áhrif á blóðsykurinn en bragðið passar mjög vel í þessa uppskrift. Ég nota fljótandi kókossykur frá Cocofina, sem er ótrúlega bragðgóður og hefur örlítið djúpan, maltkenndan keim. Kókossykur hefur hærra næringargildi en flestur annar náttúrulegur sykur og hefur minni áhrif á blóðsykur en margir aðrir valkostir, en sykurstuðull kókossykursins er 35, á meðan strásykur er í kringum 60 og maíssýróp (High Fructose Corn Syrup) er í 87.  Þessi fljótandi sykur er lítið unninn safi sem sóttur er úr blómi kókospálmans án þess að fella tréð, hann er lítið hitaður og flokkast sem hráfæði. Það þýðir að hann heldur náttúrulegu eiginleikum sínum eins vel og unnt er þegar um pakkaða vöru er að ræða. Þannig er fljótandi kókossykur góður kostur í stað annarrar sætu við hátíðleg tilefni.

Hráefni

  • 1,5 dl tahini frá Monki
  • 1/2 dl fljótandi kókossykur
  • 1,5 dl kókoshveiti
  • 100 gr sætar kartöflur
  • 1/2 tsk kanill
  • Handfylli pecan hnetur
  • 50 gr dökkt súkkulaði

Leiðbeiningar

  1. Rífðu hráa, sæta kartöflu á fínu rifjárni, saxaðu hnetur og súkkulaði.
  2. Blandaðu öllum hráefnunum saman og hnoðaðu þau saman í skál. Deigið verður frekar blautt og klístrað en það er í góðu lagi.
  3. Rúllaðu deiginu í litlar kúlur, leggðu á bökunarpappír og þrýstu létt niður með gaffli. Þær mega vera í þykkara lagi.

Bakaðu við 160-180 gráður í 10-15 mínútur eða þar til kökurnar byrja að brúnast örlítið. Þær verða dásamlega mjúkar að innan og passlega stökkar að utan. Frábærar með glasi af ískaldri möndlumjólk.