Dýrðlega döðluplóma

Dýrðlega döðluplóma

Ef þú hefur ekki þegar smakkað þennan æðislega ávöxt þá skaltu festa kaup á einu stykki næst þegar þú rekst á hann. Á íslensku heitir þetta Döðluplóma en er oft kallað Persimmon eða Kaki á erlendri tungu og á skiltum matvöruverslana.

Bragðið er bókstaflega ólýsanlegt. Þetta er eins og afkvæmi melónu og plómu og döðlu…en bara margfalt betra en hægt er að útskýra með orðum. Láttu útlitið ekki blekkja þig – þetta lítur út eins og illa farinn tómatur en það segir ekkert um bragðið Oftast eru þær frekar ófrýnilegar og ég hef aldrei séð lýtalausa döðluplómu en fegurð þeirra má alltaf að finna að innan

Neysluaðferðin er einföld: Borðið beint upp úr hýðinu með skeið eða flysjið og skerið í báta. Ekki skemmir fyrir að ávöxturinn geymir ríkulega skammta af A- og C vítamíni ásamt snefilefnunum mangan og kalín.

Þessar dúllur fást ekki alltaf hér á landi en ég vona að með mínum eigin (og þínum) magnkaupum á þessari dásemd í framtíðinni verði stöðugt framboð tryggt!