Linsubaunahimnaríki

Linsubaunir eru í mínum huga afar elskanlegar. Þær eru ódýrar, fljóteldaðar, bragðgóðar, drjúgar og mettandi. Kílóverðið á rauðum, lífrænt ræktuðum, þurrkuðum linsubaunum er á bilinu 1.000 – 1.200 krónur og eftir suðu gefur það á milli 2 og 3 kíló af hreinum og næringarríkum mat. Samanborið við kjöt og fisk er þetta því virkilega ódýr hágæða matur.

28% af orku linsubauna kemur úr próteini, en 100 gramma skammtur af soðnum linsum er 125 hitaeiningar. Úr sama skammti fást 3,8 grömm af trefjum og akkúrat ekki neitt kólesteról. Það er líklega lítið auglýst staðreynd að trefjar fást eingöngu úr jurtaríkinu og kólesteról í fæði kemur eingöngu úr dýraafurðum. Meðal annars þess vegna er mikilvægt heilsu okkar vegna að halda uppi í það minnsta háu hlutfalli jurtafæðis í daglegri neyslu. Það felur í sér t.d. baunir, hnetur, fræ, grænmeti og ávexti.

Linsubaunir eru þægilegri en margar aðrar baunir vegna þess að þær þarf ekki að leggja í bleyti og eru tilbúnar á korteri eftir að þeim er hellt úr pakkanum og ofan í heitan vökva. Stórkostlegur eiginleiki fyrir stressað og tímaskert nútímafólk!

En hvernig ber fólk sig þá að við að nota linsubaunir meira í daglegri eldamennsku?

Í fyrsta lagi skaltu alltaf eiga að minnsta kosti einn poka af þessum dásamlegu krílum inni í skáp. Passaðu svo að gleyma honum ekki, hafðu hann þar sem þú sérð hann!

Svo skaltu velta fyrir þér hvaða rétti sem þú eldar nú þegar væri hægt að bæta með því að henda út í þá góðri svettu af linsubaunum. Flestar súpur hafa gott af dálitlum baunaskammti, pottréttir ættu að henta vel, hvers konar buff og borgarar ættu að þola smá skammt af soðnum linsubaunum og svo mætti lengi telja.

Byrjaðu bara smátt og svo kemstu upp á lagið með að nota þær, t.d. til að drýgja rándýra kjötrétti og á endanum geturðu kannski hugsað þér að elda sérstaka linsubaunarétti linsubaunanna vegna. Hér er svo uppskrift að ljúffengum og ótrúlega einföldum linsubaunarétti sem klikkar aldrei!

Hér er dæmi um stórsniðugan og ódýran kvöldmat eins og hann kemur fyrir eða einfaldur grunnur að flóknari rétti með öllum þínum uppáhalds hráefnum til viðbótar.

Hráefni

 • 1 laukur
 • 4 hvítlauksgeirar
 • 2 msk Patak’s karrýmauk
 • 2 msk mangóchutney
 • 2 dósir kókosmjólk
 • 1 grænmetisteningur
 • 2 dl rauðar linsubaunir
 • 1 sæt kartafla
 • Grænmeti að eigin vali

Leiðbeiningar

 1. Saxaðu lauk og hvítlauk og láttu malla á pönnu í 2-3 mínútur ásamt karrýmauki og mangóchutney. Hafðu hitann ekki of háan og haltu hráefnunum á hreyfingu með góðum spaða.
 2. Skerðu sætu kartöfluna í teninga og bættu henni út í ásamt kókosmjólk, grænmetisteningi og linsubaunum (þær þurfa ekki að liggja í bleyti, fara bara þurrar út í).
 3. Notaðu svo tækifærið og skelltu með þessu öllu því grænmeti sem þig lystir eða því sem er á síðasta snúning í skápunum. Mér finnst frábært að nota grænkál út í þennan rétt!
 4. Láttu allt saman malla í u.þ.b. korter, smakkaðu þá og bættu við karrýmauki eftir smekk.

Mér finnst gott að saxa ferskan kóríander yfir í lokin og gott brauð klikkar aldrei.

Prófaðu, ég LOFA að bragðið kemur á óvart!