Ljúffengari og heilnæmari Ris a la mande

Ljúffengari og heilnæmari Ris a la mande

Hefðir þú getað trúað því jólagrauturinn klassíski (en dálítið syndsamlegi), ris a la mande, gæti verið stútfullur af næringu og hollustu án þess að fórna nokkru af bragðgæðunum?

Ég þróaði alveg dásamlega uppskrift (þó ég segi sjálf frá) sem birtist í jólablaði Nettó 2013. Hann fékk frábæra dóma þá og ég er búin að fá ótal fyrirspurnir nú í aðdraganda jólanna um hvar uppskriftina sé að finna. Margir sem hafa varla snefil af hollustuáhuga hafa smakkað hann og þótt hann alveg einstaklega bragðgóður og börnin mín eru búin að tala um það síðan í ágúst að við verðum að passa að hafa aftur holla jólagrautinn í stað þess hefðbundna. Einlægara og heiðarlegra hrós held ég að ég geti aldrei fengið 🙂

Þeir sem hafa forðast mjólkurvörur eða hafa mjólkuróþol eða ofnæmi geta glaðir notið þessarar jóladásemdar ásamt hverjum þeim sem vill heilnæmari valkost þessi jólin.

Það er mjög erfitt að klúðra þessari matargerð, en það þarf að nostra dálítið við þetta og leyfa hlutunum að taka sinn tíma. Sjóða við lágan hita, láta kólna vel og allt þetta sem reynir á þolrif óþolinmóðra líkt og sjálfrar mín! Allt þetta er sannarlega þess virði og þetta verður án efa ein af þínum uppáhalds jólauppskriftum.

Ég nota sojamjólk með vanillu til hátíðabrigða. Hún gefur dýpra vanillubragð og aðeins meiri sætu. Það má þó nota hvaða jurtamjólk sem er, með eða án vanillu, og breyta þá bara hlutfalli annarrar vanillu og sætu í samræmi við það.

Hráefni

Grauturinn:

 • 1 dl stutt hýðishrísgrjón
 • 3,5 dl sojamjólk með vanillu
 • 1 vanillustöng
 • 1 dós kókosmjólk
 • 1/2 dl hýðislausar möndlur
 • 1 tsk hrásykur eða maca duft
 • Nokkur saltkorn

Sósan:

 • 150 gr frosin jarðarber
 • 80 gr þurrkuð trönuber
 • 1 dl kókosmjólk, glæri hlutinn
 • 1/4 – 1/2 tsk kanill
 • 2-4 msk fljótandi kókossykur eða hlynsýróp

Leiðbeiningar

Grauturinn:

 1. Láttu kókosmjólkina standa í ísskáp í sólarhring áður en þú hefst handa.
 2. Leggðu hrísgrjónin í bleyti í 30-60 mínútur, sigtaðu þau svo og skolaðu.
 3. Helltu hrísgrjónum og sojamjólk í þykkbotna, víðan pott. Kljúfðu vanillustöngina og bættu út í ásamt saltinu. Láttu sjóða við mjög lágan hita í allt að klukkustund eða þar til grjónin eru mjúk og grautarkennd.
 4. Taktu pottinn af hellunni, veiddu vanillustöngina upp úr og hrærðu maca dufti eða sykri saman við, bættu í eftir smekk ef þörf er á. Geymdu svo grautinn í ísskáp í minnst eina klukkustund eða þar til hann er vel kaldur.
 5. Saxaðu möndlur smátt og blandaðu þeim út í.
 6. Opnaðu kókosmjólkurdósina varlega án þess að hrista hana og skafðu þykkasta lag kókosmjólkurinnar – kókosrjómann varlega upp úr. Geymdu mjólkina sem eftir situr fyrir sósuna. Settu kókosrjómann í skál og þeyttu hann eins og rjóma í 1-5 mínútur eða þar til hann verður þéttur og mjúkur.
 7. Hrærðu kókosrjómann saman við kaldan grautinn, geymdu svo blönduna í ísskáp þar til hún er tilbúin að fara í skálar.

 

Sósan:

 1. Settu öll hráefnin nema sykurinn í pott og láttu krauma við mjög lágan hita þar til berin eru öll orðin mjúk.
 2. Maukaðu allt saman í blandara eða með töfrasprota, smakkaðu til með kókossykri eða hlynsýrópi og berðu volga sósuna fram með grautnum.