Safagerð

Safagerð

Við erum öll farin að kannast við hin síendurteknu skilaboð að safi sé óhollur, óæskilegur eða jafnvel skaðlegur. Í mörgum tilfellum er sá boðskapur réttur, enda er fernupakkaður safi með áralangan geymslutíma kominn óþægilega langt frá náttúrulegum uppruna sínum. Engin ástæða er þó til að útiloka allar tegundir safa, sumar tegundir eru betri en aðrar og ferskur, nýpressaður safi er hrein heilsubót ef rétt er að staðið.

Safagerð með tilgang

safagerd1Munurinn á tilbúnum safa og nýpressuðum er gríðarlegur, hvort sem er í bragðgæðum, næringargildi eða vinnsluaðferðum. Sá sem þú kaupir út í búð getur verið allt frá sykurblönduðu vatni með ógrynni litarefna, bragðefna og rotvarnarefna upp í það að vera lífrænt vottaður, ómengaður hreinn safi. Þann fyrrnefnda er gott að forðast en lífrænn og hreinn safi úr glerflösku er fínasta tilbreyting af og til, og nokkuð sem mér þykir oft gott að grípa í á hlaupum.

Nýpressaður safi er svo hreinlega allt önnur afurð og á engan hátt hægt að líkja saman við neitt sem þú kaupir í flösku eða fernu. Það að velja hráefnin af kostgæfni, þvo þau og skera, setja þau með eigin höndum í pressuna, horfa á afurðina renna beint í glasið og drekka innan fárra mínútna er einfaldlega ein sú besta viðbót við heilnæmt mataræði sem hægt er að hugsa sér. Úr ferskpressuðu hráefni færðu ógrynni vítamína, steinefna, andoxunarefna, ensíma og plöntunæringarefna (e. phytonutrients). Með því að fjarlægja trefjarnar verður upptaka líkamans bæði hröð og skilvirk, svo mögulegt er að nýta þessa aðferð til að stórauka næringargildi mataræðisins og auka fjölbreytni næringarinnar í einu glasi. Trefjar eru afar mikilvægar fyrir meltinguna og ég legg mikla áherslu á að borða heilar, óunnar afurðir náttúrunnar á hverjum degi, en vel samansettur og ferskur safi er frábært næringarskot til viðbótar við annan mat.

Hvað á að pressa?

safagerd2Til að safagerðin gefi af sér sem mestan ávinning er mikilvægt að hafa hlutfall grænmetis í safanum sem hæst, en nota ávexti í hófi. Ekki misskilja – ég borða sjálf mikið af ávöxtum og er hlynnt stóraukinni neyslu ferskra og heila ávaxta. Í safa er hins vegar betra að gæta hófs þar sem mikið er af náttúrulegum sykri í ávöxtum sem nýtist líkamanum mjög vel þegar trefjarnar fylgja með, en án þeirra getur upptaka líkamans orðið of hröð. Grænmeti inniheldur umtalsvert minna magn náttúrulegs sykurs og er mjög orkusnautt, en flestar tegundir þess færa líkamanum margfalt næringu en nokkurt annað hráefni í náttúrunni ef horft er til næringargildis í hlutfalli við orku. Þetta á sérstaklega við um grænt blaðgrænmeti á borð við grænkál. Ekki láta hugmyndina um grænmetissafa hrylla þig, þetta er ekkert í líkingu við hnausþykkan og mikið unnin grænmetissafa sem þú hefur mögulega smakkað. Ferskleikinn er dásamlegur og bragðið mjög gott! Ég lofa. Það er líka um að gera að nota aðeins meira af ávöxtum fyrst um sinn á meðan bragðlaukarnir venjast grænmetinu og smám saman minnkarðu sætuna og eykur hlutfall grænmetis. Áður en varir munt þú upplifa sterka löngun í ósætan grænmetissafa ef þú gerir safagerðina að reglubundinni venju.

Til viðbótar við grænmeti og ávexti er gott að nota ferskar kryddjurtir sem eru virkilega næringarríkar og gefa skemmtilegt bragð í margar tegundir safa. Mér finnst líka dásamlegt að nota ferska engifer- eða túrmerikrót eða hræra saman við safann cayenne pipar eða ofurfæðidufti á borð við spírulínu, klórellu eða bygggrasduft.

Hvernig á að pressa?

Fyrsta ákvörðunin sem þarf að taka er hvers konar tæki á að nota við safagerðina og um það mætti skrifa heila bók. Ég hef átt fjórar safapressur yfir ævina, þar af tvær hræódýrar sem ég notaði ekki nema örsjaldan áður en þær rykféllu inni í skáp. Þær skiluðu litlum safa úr miklu magni, litlum gæðum og það var alveg grautleiðinlegt að þrífa þær. Svo hef ég átt tvær af dýrari gerðinni og ég ætla að fara yfir kosti og galla beggja.

Á Íslandi fást ýmiss konar pressur en þær er auðvelt að flokka niður í tvo meginflokka. Annars vegar eins konar safatætari sem rífur hráefnið í sig og þeytir safanum úr, og hins vegar raunverulega safapressur sem kremja hráefnið og merja úr því safann. Ég hef notað báðar tegundir töluvert, sú fyrri sem ég átti var af gerðinni Solis og var mjög vinsæl hér á landi fyrir nokkrum árum síðan.

Solis pressan mín var af tætaragerðinni. Þ.e. ég mataði hana á hráefninu, hún tætti það niður með hnífum og svo var maukinu snúið á miklum hraða upp að síu svo að safinn þrýstist í gegn fyrir krafta miðflóttaaflsins en hratið skilaði sér annars staðar út. Í svona pressu borgar sig að kjarnhreinsa ávexti vel því hún tætir í sig alla hluta ávaxtanna, þ.á.m. steinana, sem ekki eru alltaf æskilegir til neyslu. Þessi tegund safapressa er mjög hraðvirk en á það til að vera hávær líka. Hún skilar hratinu hálfblautu frá sér og safinn blandast miklu súrefni í ferlinu sem veldur því að næringargildið hrapar mjög hratt. Þegar safi er pressaður er magn froðunnar sem myndast ofan á honum til marks um hversu mikið súrefni hefur komist að í ferlinu, meiri froða þýðir meira súrefni og því er safinn endingarbetri eftir því sem froðan er minni, og næringargildið hærra. Safa úr svona pressu borgar sig þess vegna að drekka strax til að nýta alla næringuna því súrefnið heldur áfram að hafa áhrif. Svona pressur nýta blaðgrænmeti illa en ég var vön að pressa önnur hráefni fyrst og setja svo safann ásamt blaðgrænmeti í blandara og gera þannig einhvers konar blöndu af safa og þeytingi. Að sama skapi taka svona pressur ekki möndlur og hnetur. Þessi flokkur pressa hefur þann kost að vera almennt ódýrari og hentar þ.a.l. betur fyrir þá sem gera sjaldan safa eða gera minni kröfur um gæði.

ks 2041Nýja pressan mín er af gerðinni Witt Kuving’s og er svokallaður „slow juicer“. Hún er sannkölluð pressa eða „kremjari“ þar sem í henni er stór skrúfa sem snýst hægt og kremur hráefnið í gegnum sigti. Líkt og á tætarapressum kemur safinn út á einum stað en hratið annars staðar en hér er hratið mun þurrara en það var í Solis pressunni og hráefnanýtingin umtalsvert betri. Safinn skilar sér með miklu minni froðu og súrefnisíblöndun er alveg í lágmarki. Í Kuving’s pressuna set ég öll hráefnin, þ.á.m. blaðgrænmeti og kryddjurtir og hún fer létt með að fullnýta þau hráefni ásamt því sem hún getur pressað úr hveitigrasi. Ég fæ því hágæða safa fullkláraðan út úr pressunni og þarf ekki að nota blandara til að gera drykkinn grænni og næringarríkari. Í þessari pressu eru grófari hlutar ávaxtanna skildir frá safanum og steinar og annað sem ég vil ekki að blandist við safann skilar sér út með hratinu, sem mér finnst mikill kostur. Það er þægilegra að þrífa þessa vél en nokkra aðra sem ég hef átt en það tók mig smá tíma að venjast því að pressa í rólegheitunum frekar en að tæta bara öllu í gegn á örskotsstundu. Ég vil þó taka fram að munurinn er ekki mikið meiri en ein til tvær mínútur svo það er ekkert til að stressa sig á. Eftir því sem ég nota þessa meira læri ég betur að ná sem mestu út úr henni og kann sífellt betur við þetta frábæra tæki. Hún er vissulega dýrari en margar aðrar en mér finnst verðmunurinn margfalt þess virði þar sem gæðin safans eru meiri og hann endist betur, t.d. ef ég vil taka með mér safa í vinnuna, hráefnin nýtast betur, ég get pressað hvaða grænmeti sem mér dettur í hug og síðast en ekki síst er hægt að nota þessa vél til að gera alveg freyðandi ferska og ljúffenga möndlu- og hnetumjólk. Með henni fylgdi einnig sérstök sía til að gera þeytinga með trefjum og öllu svo þetta er algjör alhliða græja! Þessi gerð er frekar ný á markaði og þegar ég var að kynna mér hana lagðist ég í mikla leit að upplýsingum og umsögnum og komst að því að hún hefur slegið rækilega í gegn hjá almenningi jafnt sem fagmönnum og heilsunördum.

Allar safauppskriftir sem ég mun setja hér inn verða gerðar í Kuving’s og leiðbeiningarnar verða í samræmi við „slow juicer“ vélar, en Hurom pressurnar sem margir eiga eru einnig af þeirri gerð. Þeir sem eiga annars konar pressur geta sannarlega notað uppskriftirnar líka en gætu þurft að blanda blaðgrænmeti saman við í blandara eftir að önnur hráefni hafa verið pressuð. Þeir sem eiga enga pressu en vilja prófa geta sett öll hráefnin í háhraða blandara og maukað þau alveg áður en blandan er síuð í gegnum fínan grisjupoka til að skilja safa frá hrati.

Nokkur ráð um notkun Kuving’s og sambærilegra pressa:

  • Lestu leiðbeiningarnar vel og byrjaðu á einföldum tilraunum. Það tekur smá tíma að fá tilfinningu fyrir svona tæki og hvernig best er að nota það til að afraksturinn verði sem bestur og mestur.
  • Notaðu lífrænt ef mögulegt er og pressaðu þá með hýði og öllu nema stilkum. Ef þú notar hefðbundið hráefni (ekki lífrænt) getur borgað sig að afhýða, sérstaklega epli.
  • Byrjaðu á að undirbúa öll hráefnin, þvoðu þau vel og taktu í burtu stilka. Hafðu þau öll í skál við höndina.
  • Það má setja stór stykki og jafnvel heila ávexti í tækið en mér finnst ég ná betri útkomu með því að skera það aðeins niður fyrst. Ekkert vesen, bara skera t.d. epli í tvennt eða fernt, tekur enga stund.
  • Settu mismunandi hráefni í gegnum pressuna til skiptis. Þetta skiptir sérstaklega máli þegar þú pressar blaðgrænmeti, það hjálpar til að setja bita af t.d. epli, gúrku eða gulrót á eftir.
  • Þegar þú setur grænkál og sambærilegt grænmeti í pressuna, haldu þá efst og settu stilkinn fyrst ofan í. Skrúfan grípur stilkinn og dregur kálið niður.
  • Passaðu að setja ekki of mikið í einu í pressuna. Ef þú setur lítinn skammt í einu og bíður eftir að hann sé að mestu kraminn þá verður afraksturinn betri. Ef þú yfirfyllir pressuna er líka möguleiki á að smávegis hrat fljóti með safanum.
  • Endaðu á að setja bita af hráefni sem er hvorki of þurrt né vatnsmikið til að ná sem mestu út úr skrúfunni í restina. Agúrka er vatnsmikil, gulrót er í þurrari kantinum en epli eða pera eru góðir valkostir í restina.
  • Hafðu í huga að safi úr hráefni getur haft töluvert öðruvísi bragð en hráefnið heilt. Prófaðu þig áfram með ýmislegt spennandi en ef þú ert að prófa eitthvað alveg nýtt getur verið sniðugt að pressa það fyrst og smakka safann hreinan svo þú fáir meiri tilfinningu fyrir því hvers konar bragð kemur af hverju hráefni og hvað passar best saman.
  • Síðast en ekki síst eru allar líkur á að þú munir einhvern tímann gera safa sem er alveg ódrekkandi. Láttu það ekki stoppa þig – skoðaðu uppskriftir og prófaðu aftur 🙂

Gangi þér vel og fylgstu með mér hér og á Facebook til að sjá nýjar safauppskriftir um leið og þær birtast!

Uppskriftir:

Ferskur grænn safi fyrir byrjendur

Nýpressaður rauðrófusafi