Kínóagrautur með bláberjamöndlurjóma

Kínóagrautur með bláberjamöndlurjóma

Kínóa er ótrúlegt hráefni sem sniðugt er að eiga tilbúið í ísskáp og nota við hin ýmsu tilefni. Það er frábært í grauta sem þennan en svo er hægt að sjóða það til notkunar líkt og hrísgrjón, gera úr því buff og bollur, hræra saman við súpur og grauta eða jafnvel bæta soðnu kínóa í þeytinginn til að auka prótein- og næringargildi hans. Þetta er eitt af fáum hráefnum úr jurtaríkinu sem inniheldur allar lífsnauðsynlegu amínósýrurnar en stæ
rsti kosturinn er milda, hnetukennda bragðið af þessum skemmtilegu litlu kornum. Þau eru alveg glútenlaus og eru tæknilega séð fræ en eru notuð að miklu leyti eins og korn í matargerð.

Þessi grautur er svo ótrúlega ljúffengur en á sama tíma svo stútfullur af næringu og hollustu að hann gengur bæði sem morgunmatur og eftirréttur í hvaða matarboði sem er. Það er alveg ómissandi að bæta í hann söxuðum ávöxtum, ferskum berjum, kakónibbum eða hnetum eftir smekk eða bara hvað er til í skápunum. Fersk bláber og pecan hnetur eru uppáhaldið mitt í þennan.

Hráefni

Möndlurjómi:

 • 5 dl vatn
 • 1 dl afhýddar möndlur
 • 3-6 mjúkar döðlur
 • 1/2 tsk hreint vanilluduft
 • Himalayasalt á hnífsoddi

Grauturinn:

 • 1 dl ósoðið kínóa
 • Möndlurjómi – helmingurinn af blöndunni
 • 1 dl vatn
 • 1/4 tsk kanill

Bláberjamöndlurjómi:

 • Möndlurjómi – hinn helmingurinn
 • 1 dl frosin bláber

 

Hráefni

 1. Byrjaðu á möndlurjómanum: blandaðu öllum hráefninum rækilega saman í blandara. Taktu helminginn til hliðar og geymdu í ísskáp. Næst er röðin komin að grautnum:
 2. Láttu kínóa í bleyti ef tími gefst, og/eða skolaðu það vel fyrir eldun.
 3. Láttu vatnið renna af og settu svo blautt kínóað á þurra pönnu. Hitaðu að miðlungshita og hrærðu í nokkrar mínútur á meðan það þornar, ristast og dökknar örlítið.
 4. Helltu svo öllum vökvanum út í (möndlurjóma og vatni) og hrærðu kanil saman við.
 5. Settu lok á og láttu sjóða við mjög lágan hita í u.þ.b. 20 mínútur eða þar til allur vökvinn er horfinn og kínóað er orðið að mjúkum graut.
 6. Gott er að nota tímann til að saxa hnetur og/eða ávexti til að blanda saman við tilbúinn grautinn.
 7. Skammtaðu á diska og gerðu bláberjamöndlurjómann: Blandaðu rjómanum og bláberjunum saman þar til fjólublá mjólkin verður silkimjúk og freyðandi. Berðu fram með grautnum og notaðu óspart með.