Glúten-, eggja- og mjólkurlausar vatnsdeigsbollur

Glúten-, eggja- og mjólkurlausar vatnsdeigsbollur

Bollur eru ómissandi í lífi hvers Íslendings þessa dagana en ekki hafa allir kost á að borða þessar hefðbundnu sem fást í öllum bakaríum og verslunum. Ég hef sjálf ekki borðað egg eða mjólkurvörur í tæp tvö ár og í einu skiptin sem mér finnst ég virkilega fara á mis við eitthvað er þessa örfáa daga á ári þar sem rjómabollur finnast í hverju horni.

Ég leitaði á náðir veraldarvefsins og fann eina uppskrift sem ég aðlagaði örlítið og gerði tilraunir með. Þetta er sú niðurstaða sem fær mig til að gleyma öllum hefðbundnum rjómabollum fortíðarinnar og njóta án nokkurs hiks.

Þessar bollur bragðast dásamlega en geymast illa. Best er að baka þær rétt áður en ætlunin er að bera þær fram því þær geta orðið harðar við geymslu. Það ætti þó ekki að vera bolluaðdáendum til trafala, því hver geymir rjómabollur þegar hægt er að borða þær í staðinn?!

Hráefni

Bollurnar:

 • 2,5 dl Doves glútenlaust mjöl
 • 1 msk kókosolía
 • 1/4 tsk himalayasalt
 • 2 msk hlynsýróp
 • 2,5 dl rísmjólk
 • 2 tsk Orgran No Egg duft
 • 80 ml volgt vatn

Ávaxtasulta:

 • 50 gr ananas
 • 50 gr jarðarber
 • 2 msk goji ber
 • 1 tsk hreint vanilluduft

Súkkulaðiglassúr:

 • 2 msk hrákakó
 • 1 msk kókosrjómi
 • 1/2 tsk hreint vanilluduft
 • 1 msk hlynsýróp

Kókosrjómi:

 • 1 dós kókosmjólk

Leiðbeiningar

Bollurnar:

 1. Forhitaðu ofninn í 200 gráður.
 2. Hitaðu mjólk og kókosolíu að suðu í þykkbotna potti, hrærðu saman mjöli og salti í skál og geymdu til hliðar.
 3. Á meðan vökvinn hitnar skaltu þeyta eggjalausa duftið og volga vatnið saman þar til það stífnar. Gott er að nota kröftugan handþeytara eða hrærivél þar sem þetta tekur nokkrar mínútur.
 4. Þegar vökvinn hefur hitnað, taktu hann af hellunni, hrærðu hlynsýrópi út í og blandaðu svo þurrefnunum saman við með sleif eða skeið þar til blandan helst saman í bolta eða því sem næst.
 5. Blandaðu eggjalausu hrærunni saman við deigið í skömmtum og ef þörf krefur má setja deigið örstutt í hrærivél til að allt blandist vel saman.
 6. Skiptu deiginu í u.þ.b. 12 bollur og láttu bakast í 20 mínútur. Lækkaðu svo hitann niður í 170 gráður, snúðu plötunni í ofninum og láttu bakast í 10 mínútur til viðbótar. Láttu loks kólna í ofninum. Gott er að leggja álpappír yfir bollurnar ef þær byrja fljótt að brúnast til að koma í veg fyrir að þær brenni að ofan

 

Sultan:

 1. Maukaðu allt saman og láttu standa í hálftíma.
 2. Ef erfiðlega gengur að blanda þetta má bæta við örlitlu vatni eins og þörf er á og bæta þá einnig við örlítið meiru af chia fræjum til að sultan verði ekki of fljótandi

 

Glassúrinn:

Venjulega væri kannski flottara að bræða dökkt, lífrænt súkkulaði yfir bollurnar en af dularfullum orsökum voru súkkulaðibirgðir heimilisins á þrotum svo ég fór þessa leið frekar en að bíða stundinni lengur eftir súkkulaðihúðaðri bollunni!

 1. Hrærðu öllum hráefnunum saman og smakkaðu til. Þessi útgáfa er frekar lítið sæt en það er ekkert því til fyrirstöðu að bæta við hlynsýrópi til að sæta glassúrinn.

 

Kókosrjóminn:

 1. Dós af kókosmjólk er látin standa í ísskáp í minnst einn sólarhring. (Má ekki vera fituskert eða „light“)
 2. Hún er svo opnuð varlega og án þess að snúa henni á hlið eða á hvolf, þykki hlutinn tekinn varlega upp úr með skeið og þeyttur eins og venjulegur rjómi.

 

Einnig er hægt að kaupa þeytanlegan soja- eða hrísrjóma í flestum verslunum, eða jafnvel þeytirjóma í brúsa.