Góðgæti úr öldruðum banönum

Góðgæti úr öldruðum banönum

Í anda þeirrar umræðu sem hefur sprottið upp undanfarna daga, um mikilvægi þess að nýta allan mat og henda sem minnstu, deili ég þessari æðislegu uppskrift! Á netinu má finna ótal útgáfur af svona banana-hafrakökum og í raun eru öll hlutföll hafra og banana tilraunarinnar virði – og auðvitað ekkert nema spennandi að prófa ýmsar tegundir viðbótarhráefna eins og þurrkaða ávexti, fræ eða hnetur.

Þetta eru dúndurhollar, auðveldar, ódýrar og fljótlega smákökur sem bragðast alveg dásamlega. Þær henta frábærlega þegar þú ert í vandræðum með nokkra aldraða banana sem eru komnir í brúnar kápur eða þegar þig langar í handfylli af bragðgóðu bakkelsi án þess að hafa nokkrar áhyggjur af sykurmóki eða öðrum leiðinda afleiðingum.

Þessi uppskrift er svo auðvelt og skotheld að þú þarft ekkert að fara út í nákvæmar vigtanir og mælingar. Hrærðu í þennan graut eftir tilfinningu og reyndu að hafa hemil á óþreyjunni þegar ilmurinn fer að breiðast um eldhúsið. Það er örugglega ekki hægt að klúðra þessum kökum!

Hráefni

  • 4 vel þroskaðir bananar
  • 8 mjúkar döðlur
  • 230 gr grófar hafraflögur
  • 1/2 tsk hreint vanilluduft
  • 1,5 tsk kanill
  • Handfylli af rúsínum

Leiðbeiningar

  1. Fyrst maukar þú banana og döðlur.
  2. Hrærir svo restina saman við og lætur standa í svona 10 mínútur ef þú hefur þolinmæði til.
  3. Næst grípurðu matskeið og notar hana til að skammta lítil kökukrútt á pappírsklædda bökunarplötu.
  4. Bakar loks við 180 gráður í u.þ.b. 20 mínútur eða þar til kökurnar eru orðnar gullbrúnar.

Svo er bara að hefja nartið og njóta vel – þú þarft aldrei að henda einum einasta banana aftur!