Kínóaskál á 10 mínútum

Kínóaskál á 10 mínútum

Stundum er hentugt að geta eldað ljúffenga máltíð fyrir einn með lítilli fyrirhöfn á örskömmum tíma. Þessi einfaldi réttur tekur styttri tíma en að panta pizzu og hann er svooooo léttur í maga og góður á bragðið. Það er alveg upplagt að eiga alltaf poka af forsoðnu kínóa til taks eða sjóða góðan skammt af þessu undrakorni og eiga alltaf tilbúið í ísskápnum.

Það má alveg nota hvaða grænmeti sem er í svona skál. Sæta kartaflan hæfir mjög vel en það er líka hægt að nota gulrót og svo er hægt að bæta við hverju því sem leynist ísskápnum hverju sinni. Sumt grænmeti er betra eldað en annað ferskt svo þetta gæti endað með einu allsherjar kínóa salati!

Svona er einföld útgáfa sem mér finnst fullkomin á bragðið og fyllir mig alltaf langvarandi orku.

Hráefni

 • 1-2 hvítlauksrif, söxuð
 • Góður bútur af sætri kartöflu skorinn í litla teninga
 • 2,5 dl vatn
 • Hálfur grænmetisteningur
 • 1,5 dl forsoðið og þurrkað kínóa frá Nature Crops (fæst í Nettó)
 • Hálft avókadó
 • Svartur pipar
 • 1/4 – 1/2 sítróna

Leiðbeiningar

 1. Hvítlaukurinn og sæta kartaflan mýkt á pönnu í 2-3 mínútur. Ég nota þykkbotna pönnu og skvetti smá gusu af vatni á hana til að mýkja og koma í veg fyrir að hráefnin brenni.
 2. Vatn og grænmetisteningur sett út á og suðan látin koma upp
 3. Kínóa sett út í sjóðandi vatnið, lok sett á og allt tekið af hellunni. Látið bíða í ca 3 mínútur. Kínóað verður „al dente“ þegar það er tilbúið en ef það er enn auka vatn þá er best að hita aftur undir pönnunni til að það gufi upp. Þetta á að vera laust og létt, svona „flöffí“.
 4. Svo er bara að brytja sneið af mjúku avokadó út á, pipra svolítið vel með nýmöluðum svörtum pipar og kreista vel af ferskum sítrónusafa yfir allt.
 5. Það má líka sjóða kínóa frá grunni og nota út í þetta en það tekur auðvitað lengri tíma og þá þarf ekkert auka vatn.