Ljúffengar hummusbollur

Ljúffengar hummusbollur

Þó að ég kalli þessar litlu dúllur hummusbollur er ekki víst að þér dytti í hug nokkur tenging ef þú smakkaðir þær án vitneskju um uppskriftarheitið. Mér fannst það bara viðeigandi því tvö aðal innihaldsefnin eru þau sömu og í hummus – kjúklingabaunir og tahini. Reyndar eru hráefnin ekki mikið fleiri og því erum að ræða afskaplega einfalda matargerð þó að bolluhnoðið geti tekið örlítinn tíma. Útkoman er hreinlega allra besta útgáfa af bollum sem ég hef nokkurn tímann smakkað.  Það skemmir heldur ekki fyrir hvað þær eru ótrúlega næringarríkar, einfaldar og auðveldar í matreiðslu og svo dásamlega fljótlegt að henda þeim saman.

Ég hef tvisvar sinnum mætt með fulla skál af hummusbollum á hlaðborð og í bæði skiptin ruku þær út eins og heitar lummubollur við góðar undirtektir. Það skemmtilega við þær er nefnilega það að engin þörf er á að bera þær fram sérstaklega heitar, þær eru prýðilegar við stofuhita jafnvel þó það ætti aldrei að geyma þær á borði tímunum saman.Fínasti aðalréttur, forréttur, fingramatur eða sem hinn fullkomni partímatur!

Fallegar, ilmandi bollur sem eru stökkar og utan en mjúkar að innan. Þær eru bestar ef þær eru mjög litlar, ca 3 sentimetrar í þvermál, og þeim svo dýft létt í þessa bragðsterku sósu. Óformlegar bragðprófanir hafa leitt í ljós að þær falla að smekk flestra fullorðinna og barna.

Hráefni

Bollublandan:

 • 1 krukka kjúklingabaunir
 • 1 msk tahini
 • 2 msk mangó chutney

Raspurinn:

 • 3 msk graskersfræ
 • 1 tsk reykt paprikukrydd

Sósan:

 • 1 dl sojamjólk
 • 5-6 sólþurrkaðir tómatar
 • 1 hvítlauksgeiri

 

Leiðbeiningar

 1. Skolaðu baunirnar vel og maukaðu þær saman við tahini og mangóchutney.
 2. Hakkaðu graskersfræ í gróft duft og blandaðu því saman við paprikukryddið. Ég mæli með reykta paprikukryddinu frá Pottagöldrum en það er einnig til frá Prima og sú tegund hentar illa í þessa uppskrift.
 3. Mótaðu bollur úr baunamaukinu og veltu þeim svo upp úr duftinu.
 4. Bakaðu bollurnar við 180 gráður í u.þ.b. 20 mínútur eða þar til þar til þær verða örlítið stökkar að utan
 5. Á meðan bollurnar bakast er gott að búa til sósuna með því að mauka hráefnin saman í matvinnsluvél. Sigtaðu hratið frá ef eitthvað er

Berðu bollurnar fram með sósunni og athugaðu að það þarf mjög lítið af sósu með hverri bollu. Mér finnst gott að borða þetta sem fingramat og dýfa bollunum grunnt ofan í sósuskál.