Ó, dásamlega spírubrauð!

Ó, dásamlega spírubrauð!

Ég er nýbúin að uppgötva spírubrauð og elska þau svo fast að ég gæti sprungið úr gleði! Þau eru ótrúlega ljúffeng, innihalda engin aukaefni eða óþarfa hráefni og eru stútfull af auðmeltri næringu. Brauðið sem sést á þessari mynd inniheldur einungis tvö hráefni: Spíruð heil hveitikorn og rúsínur. Ekkert annað!

Þegar hveitikornið er spírað hækkar próteinhlutfall þess því kolvetnin brotna niður að hluta og verða því einnig auðmeltari fyrir líkamann. Að spírun lokinni er kornið malað og bakað ásamt rúsínunum í þéttan, mjúkan brauðhleif. Ekkert er tekið úr spíruðu kornunum svo hvert einasta næringarefni og allar trefjarnar fylgja með í brauðinu alla leið. Fyrir mitt leyti er einfaldleiki og heilnæmi hráefnanna – auk bragðgæðanna – næg ástæða til að borða aldrei nokkuð annað brauð aftur

Það eru til nokkrar tegundir en ég prófaði spírað hveitibrauð með rúsínum eins og hér á myndinni. Á tvær sneiðar fór ein fersk daðla, sem ég skar í tvennt, tók steininn úr henni og smurði svo helmingunum bókstaflega á sneiðarnar. Því næst afhýddi ég og skar niður rauða peru og bætti við litlum flísum af avocado. Í lokin stráði ég svo kanil yfir allt saman. Þetta var DÁSAMLEGUR morgunverður ásamt grænum þeytingi

Ég hvet þig til að prófa alls konar spírubrauð og gera tilraunir. Segðu mér svo endilega frá vel heppnuðum samsetningum!